fbpx
Lífskraftur er yfirskrift átaks í útivist og hreyfingu, þar sem tilgangurinn er að safna áheitum fyrir félögin Líf og Kraft. G. Sigríður (Sirrý) Ágústsdóttir stendur fyrir átakinu, en hún greindist með leg­hálskrabba­mein 2010 og aft­ur 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið var krónískt og töldu læknar að hún ætti eitt til þrjú ár eftir ólifað. Nú árið 2020 eru fimm ár liðin og Sirrý vill fagna þessum tímamótum og lífskrafti á óhefðbundinn hátt með því að:
· Ganga þvert yfir Vatnajökul í byrjun júní 2020 í félagsskap og krafti 10 útivistarvinkvenna sinna, Snjódrífanna.
· Hvetja fólk um land allt til að ganga og taka þátt í Lífskraftsgöngu í sinni heimabyggð á meðan að Snjódrífurnar ganga yfir Vatnajökul.
· Bjóða 100 konum að ganga með sér upp á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands í maí 2021.
Markmiðið með Lífskrafti er að safna áheitum fyrir félögin Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans og Kraft, félag ungs fólks með krabbamein, Jafnframt að minna á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu eftir veikindi. Sirrý hefur með þessu verkefni sameinað ást sína á fjallgöngum og þá köllun sína að styðja við það þarfa og mikilvæga starf sem félögin  Líf og Kraftur sinna í endurhæfingu einstaklinga sem gengið hafa í gegnum krabbameinsmeðferð.
Hægt er að styðja við Lífskraft með því að senda SMS í símanúmerið 1900
Sendið textann “LIF1000” fyrir 1.000 kr.
Sendið textannLIF3000 fyrir 3.000 kr.
Sendið textannLIF5000 fyrir 5.000 kr.
Sendið textannLIF10000 fyrir 10.000 kr.

Hægt er að styðja við Lífskraft með því að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR appinu í síma 789 4010.
Að ganga upp fjall og berjast við krabbamein eru ólíkar áskoranir, en hvort tveggja eru leiðangrar sem eiga það sameiginlegt að til þess að sigrast á þeim þarf að taka eitt skref í einu. Með göngunni yfir Vatnajökul vill Sirrý sýna á táknrænan hátt að hægt er að leysa úr erfiðum verkefnum ef hlúð er vel að huga og líkama og tekið er eitt skref í einu.
Sirrý hefur fengið til liðs við sig Snjódrífurnar en það eru góðar útivistarvinkonur sem ætla að slást í för með henni í þessum krefjandi leiðangri. Liður í Lífskrafti er einnig að hvetja konur um allt land til að taka þátt í Lífskraftsgöngu í sinni heimabyggð á meðan Sirrý og vinkonur hennar þvera Vatnajökul, en lagt er upp með að gangan taki níu daga. –Leiðangursstjórar yfir Vatnajökul og á Hvannadalshnjúk eru Vilborg Arna Gissurardóttir pól- og Everestfari og Brynhildur Ólafsdóttir Landvættaþjálfari og þrautreyndur fjallaleiðsögumaður.

Hér er hægt að fylgjast með leiðangri Snjódrífanna:
https://share.garmin.com/lifskraftur?fbclid=IwAR3mR9WtdjKGPKSnBH8BJkZfkscO11OhIf3ZH_IBiw2Cf7RB0X86ryILQb8
Snjódrífurnar skipa auk Sirrýar, Brynhildar og Vilborgar; Anna Sigríður Arnardóttir, Birna Bragadóttir, Heiða (Nikita) Birgisdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Soffía S. Sigurgeirsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.