Frá því Líf var stofnað hefur heilmikið breyst á kvennadeild Landspítala, svo mikið að sumir tala um spítalann fyrir og eftir tilkomu Lífs. Aðbúnaður bæði starfsfólks og þeirra sem njóta þjónustunnar hefur verið bættur til muna, bæði með tækjum þar sem við á en einnig hlutum sem gera umhverfið notalegra. Það á nefnilega öllum að líða eins vel og kostur er innan veggja kvennadeildarinnar. Við eigum afar gott samstarf við starfsfólkið og leggjum okkur fram við að mæta sem flestum óskum þeirra um styrki til að gera góðan stað enn betri.
Það getum við gert með hjálp ykkar Lífsfélaga.

21-A Kvenlækningadeild

Við keyptum borð, tvo rafstýrða hvíldarstóla, sjónvarp og tvo blóðþrýstingsmæla. Einnig loftdýnu fyrir þær sem þurfa að liggja mikið í rúminu en dýnan eykur vellíðan og dregur úr líkum á legusárum. Við keyptum líka blöðruskanna sem er afar mikilvægur til að ganga úr skugga að skjólstæðingar nái að tæma þvagblöðruna til dæmis eftir aðgerðir. Ekki má gleyma verkjalyfjadælunni sem er mjög mikilvæg til þess að nota við sídreypi verkjalyfja. Hún er helst notuð fyrir veikustu skjólstæðingana sem þurfa stundum blöndu af verkjalyfjum, ógleðilyfjum og stundum slakandi lyfjum til að líða betur.

22-A Meðgöngu- og sængurlegudeild

Við keyptum loftdýnu eins og þá sem fór á kvenlækningadeildina og tíu rafstýrða hvíldarstóla sem koma sér vel bæði fyrir mæður og feður sem dvelja á deildinni. Þá voru einnig keyptar gardínur sem gera herbergin hlýlegri.

21-B Fósturgreiningar 22-B Göngudeild mæðraverndar

Við keyptum tvö tæki sem notuð eru til að hlusta á hjartslætti fóstra, svokallaða doptone-a. Einnig þrjá rafstýrða hvíldarstóla, sófa og stól fyrir ráðgjöf og gardínur fyrir nokkrar stofur. Ekki minna mikilvæg eru garðhúsgögnin fyrir fósturgreiningardeild en það er afar mikilvægt að starfsfólk komist út einhvern tímann yfir daginn til að njóta örlítillar birtu þar sem alltaf er dregið fyrir alla glugga deildarinnar allt árið um kring.

23-B Fæðingarvakt

Við keyptum níunda fæðingarrúmið og náðum þannig þeim áfanga að öll fæðingarrúmin eru eins. Það auðveldar mjög starfsfólki vinnuna fyrir utan hvað þau eru mun þægilegri fyrir fæðandi konur. Við keyptum líka fleiri dúkkur sem notaðar eru til að þjálfa starfsfólk og tvo nýja skoðunarbekki sem leystu af bekki sem voru komnir mjög til ára sinna. Tíu nýir rafstýrðir hvíldarstólar rötuðu líka á efstu hæðina sem nýtast foreldrum bæði í aðdraganda fæðingar auk ýmislegs á kaffistofu starfsfólks til að gera hana notalegri.