John Snorri Sigurjónsson á K2
Fjallagarpurinn John Snorri er ofurhugi sem hefur verið ein mesta fjallageit okkar Íslendinga um þó nokkurt skeið. Þegar hann ákvað að láta gamlan draum rætast og klífa K2, sem er næsthæsta fjall veraldar og eitt það hættulegasta, langaði hann að láta gott af sér leiða í leiðinni. Þar sem hann er sex barna faðir og hefur notið þjónustu Kvennadeildar Landspítalans oftar en margir aðrir, ákvað hann að styrkja Líf með því að safna áheitum. John Snorra tókst ætlunarverk sitt 28. júlí 2017 og varð þar með fyrstur Íslendinga til að klífa K2.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Kári Schram var með John Snorra í för og er þessa stundina að leggja lokahöndina á heimildarmynd um þrekvirkið.
