fbpx

Kvennréttindadagurinn 19. júní var sannkallaður gleðidagur fyrir LÍF styrktarfélag og Kvennadeild LSH en þá afhenti Soroptimistasamband Íslands félaginu styrk að upphæð þrjár milljónir til kaupa á legspeglunartækjum fyrir deildina. Soroptimistasamtökin eru alþjóðleg samtök kvenna og fagna 100 ára afmæli í ár. Innan Soroptisambands Íslands eru 640 konur í 19 klúbbum víðs vegar um landið, en styrkurinn er frá fjölda klúbba sem og Soroptimistasambandi Íslands.

Eins og staðan er núna eru legspeglanir gerðar í svæfingu en með tilkomu nýrra tækja verður hægt að gera þær án svæfinga og þar með minna inngripi fyrir konur. Legspeglanir eru afar mikilvægur partur af þjónustu kvennadeildarinnar því með þeim er meðal annars hægt að skoða inn í legið og greina mögulega sjúkdóma. Tækin eru nú þegar komin í pöntun og við bíðum spennt eftir að fá þau til landsins.  

Við sendum öllum Soroptimistum hlýjar kveðjur og þökkum fyrir þessa rausnarlegu gjöf, sem mun svo sannarlega skipta sköpum á kvennadeildinni okkar allra.

Það var Guðrún Lára Magnúsdóttir (t.h.), forseti Soroptimistasambands Íslands, sem afhenti Ingrid Kuhlman (t.v.), formanni Lífs, styrkinn.