fbpx

„Við erum orðlaus yfir velvildinni í okkar garð og færum ykkur öllum hugheilar þakkir fyrir þann hlýhug sem þið hafið sýnt LÍF og kvennadeild Landspítala. Það er ekki hægt að lýsa því í orðum hvað við erum lánsöm að eiga svona öfluga stuðningsmenn.“ segir Ingrid Kuhlman, formaður Lífs styrktarfélags.

Í lok mars birtum við hjálparbeiðni á samfélagsmiðlum í kjölfar óskar kvenlækningadeildar og síðan meðgöngu- og sængurlegudeildar um blóðþrýstingsmæla sem mæla líka hita og mettun. Þegar söfnunin hófst var von okkar sú að við gætum pantað fjóra, jafnvel fimm mæla til að skipta á milli deildanna en hver mælir kostar um 500 þúsund krónur.

Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr okkar björtustu vonum því safnast hafa tæplega 8,5 milljónir króna. Nokkrum dögum eftir að söfnunin hófst lögðum við inn pöntun fyrir tíu mælum en sjáum fram á að leggja inn pöntun fyrir enn fleiri mælum en draumur meðgöngu- og sængurlegudeildar er mælir við hvert rúm sem auðveldar starfsfólki að fylgjast með skjólstæðingum deildarinnar.

Það sannaðist fyrir okkur enn og aftur hversu fallega fólk hugsar til kvennadeildarinnar en ótal einstaklingar, félög og sjóðir lögðu söfnuninni lið, þar á meðal flugáhafnir Icelandair sem söfnuðu sín á milli yfir tveimur milljónum króna.