fbpx

þú varst einu sinni hugmynd
sem breyttist svo í von
draumur sem varð að veruleika
um dóttur eða son

þann daginn snerist lífið við,
ég var glöð en samt líka hrædd
var strax farin að elska þig óendanlega,
þó þú værir ekki fædd

„Mér sýnist það vera lítil stelpa“,
sagði hún, brosti og hló
en gleðin varði ekki lengi,
vonin hún dó

þú varst svo glöð og fjörug þá,
en seinna þennan sama dag
varst þú dáin í fanginu mínu og ég söng
fyrir þig kveðju-lag

ofboðslega þrái ég
að heyra andardráttinn þinn,
stóru augun stara á mig,
hjartsláttinn í takt við minn

Nú sit ég hér með sára sál,
og hugsa mikið um þig
en hjá mér er hún systir þín
sem bráðum kemur að hugga mig

Við erum alltaf að hugsa til þín
og biðja fyrir þér
Það kemur ekkert í staðinn fyrir þig,
þú verður alltaf í hjarta mér

nú legg ég augun aftur, sef vært og rótt
í draumalandinu okkar, við hittumst aftur í nótt

-Valdís Eva