fbpx

Minningar mínar af kvennadeildinni eru ekki góðar, enn þann dag í dag er erfitt að hugsa um þetta því þessi tími var mjög erfiður og mér leið eins og ég væri í fangelsi án þess að hafa gert eitthvað af mér. Ég var því miður það óheppin að liggja inni þegar verið var að vinna í kvennadeildinni og lá inni á jarðhæðinni þar sem ólettar konur og mæður lágu saman. Samtals lá ég inni í 18 daga, og mestum hlutanum eyddi í ég 6 manna stofu. Áður en sonurinn kom í heiminn var ég fyrst sett i 6 manna stofu og var þar i 3 daga, svo 2ja manna stofu í 2 daga, fékk þá að fara heim í viku, var aftur lögð inn og þá sett aftur í þessa blessuðu 6 manna stofu þar sem ég var í 4 daga þangað til að mér var rúllað í keisarann.

Eftir einn sólarhring á gjörgæslu var mér rúllað aftur niður og var ég mjög ánægð því þá fékk ég góða einstaklingsstofu. Þegar maður eignast fyrirbura er mikilvægt að byrja að pumpa sig strax til að ná mjólkinni upp og því var gott að hafa smá næði inn á herberginu – þetta var mitt fyrsta barn og allt mjög nýtt og framandi í þessum efnum. Adam var ekki lengi í paradís því strax daginn eftir var mér rúllað út úr þessu fína herbergi og aftur í 6 manna herbergið (ef herbergi má kalla það). Þá brotnaði ég algjörlega niður, þvílík meðferð, skildi þetta engan veginn. Þarna var ég í rúminu mínu að reyna að mjólka með fullt af óléttum konum í kringum mig og það eina sem skildi okkur að var tjald sem var hægt að draga fyrir til að fá næði. Þarna var ég látin liggja í 4 daga í viðbót, mjólkaði mig sitjandi í rúminu mínu og þess á milli rúllaði ég mér upp á vökudeild í hjólastól. Svo loksins sá ein hjúkkan aumkun á mér, hún hefur örugglega tekið eftir að ég var útgrátin og mjög þreytt að ég fékk að fara í nýtt herbergi og það var nú enginn lúxus, hvorki sjónvarp né bjalla, en mér var sko alveg sama, þetta var eins og að komast á Ritz hótel í samanburði við það sem ég var vön.

Allan þennan tíma sem ég dvaldi þarna var aldrei skipt á rúminu mínu, en mjög líklega hef ég fengið nýtt rúm þegar ég kom aftur niður af gjörgæslunni en ég er ekki viss, allavegana endaði ég á að tölta fram eftir að mjólkur- og blóðblettir voru orðnir ansi margir og náði mér sjálf í lak og skipti á því. Ég vil nú samt segja að starfsfólkið allt var mjög vingjarnlegt og ég held að það sé ekki við neinn að sakast hvernig fór, held bara að ég hafi því miður legið inni á mjög óheppilegum tíma og kannski aðeins gleymst. Já, svona var mín spítalvist í nokkrum orðum, ætla aðeins að deila með ykkur líka hvernig ferlið var með veikindin og sögu sonar okkar á vökudeildinni:

Ég hafði verið hin hressasta á meðgöngu, allt gengið eins og í sögu en svo á 28. viku fór blóðþrýstingurinn að hækka hjá mér. Var svo lögð inn á spítala gengin 28 vikur og 2 daga þar sem þrýstingurinn var orðinn hár og ég komin með +1 prótein í þvagi. Ég var sett á blóðþrýstingslyf og fékk að fara heim eftir 4 daga á spítala. Svo leið vika og ég aftur skoðuð og þá var komið mikið prótein í þvagið sem þýddi að ég var komin með svokallaða meðgöngueitrun og þar af leiðandi var ég lögð aftur inn. Þetta er á föstudegi og ég er þá gengin 29 vikur og 6 daga. Svo á sunnudaginn fór að draga til tíðinda því ég var bara eiginlega hætt að pissa og var komin með heiftarlegan bjúg. Þetta hafa verið afleiðingar þess að nýrun og lifrin voru hætt að virka eins og þau eiga að gera og ástandið orðið slæmt.

Ég kyssi manninn minn góða nótt á sunnudagskvöldið og fer að sofa en það gekk illa, mér var farið að líða óþægilega. Vakna svo um þrjú um nóttina með mikil ónot í maginum og leið bara eins og ég hefði þambað 4 lítra af vatni og það sæti allt fast í mér ef það er einhvern veginn hægt að lýsa þessu. Kl. 05 um nóttina kalla ég á hjúkrunarfræðing og hún kíkir aðeins á mig og ég leggst aftur inn í rúm en kl. 07 bjalla ég aftur á hjúkkuna og hún hringir þá á lækninn. Þá hafði þvagið mitt verið skoðað frá því um kl. 05 um nóttina og læknirinn segir að það hafði verið eins og te á litinn, svo mikil prótein hefðu verið í því. Þá segir hún bara að það eina í stöðunni sé að framkalla fæðingu og það bara undir eins, að farið verði með mig upp á fæðingargang og ég undirbúin fyrir keisara. Auðvitað var þetta mikið áfall og maður ekki undirbúin að þetta myndi gerast svona hratt.

Ég hringi í manninn minn og vek hann kl. 07.50 og segi honum að koma þar sem þeir ætli að setja mig í keisara strax. Hann er kominn til mín nokkrum mínutum seinna og drengurinn er kominn í heiminn k. 09.30. Fæddist eftir 30 vikur og 2 daga og vó 1380 grömm og 40 cm. Það var ákveðið að svæfa mig fyrir keisarann en ekki mænudeyfa þar sem þeir höfðu áhyggjur af fyrri sjúkdómsgreiningu sem ég er með og þorðu ekki að fikta í taugaviðbrögðum hjá mér.

Mánudagurinn leið í frekar mikilli móðu hjá mér, ég var víst rosalega veik og fékk eitthvað magnesium sulfate drip í æð því þeir höfðu áhyggjur af því að ég færi í krampaköst einhver sem getur víst gert eftir svona eitrun. Var á gjörgæslu fyrsta sólarhringinn þar sem staðan var ekki nógu góð. Út af þessu öllu saman fékk ég ekki að sjá strákinn minn fyrr en daginn eftir þegar mér var keyrt í spítalarúminu yfir til hans á vökuna. Maðurinn minn var ekki með mér og ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast, var búin að sjá myndir af honum og sá alveg fyrir mér ágætlega stóran einstakling. Það að sjá barnið sitt í fyrsta skipti er held ég sjón sem ekkert foreldri gleymir og hvað þá ég, mér brá svo svakalega og þar sem ég hafði ekki maka minn með mér þá vissi ég ekki alveg hvernig ég átti að haga mér. Fékk smástund til að virða hann fyrir mér og var svo rúllað aftur inn á herbergið mitt upp á gjörgæslu. Fannst nú algjör lúxus að vera þar því þar var ég ein í herbergi og með sjónvarp, eitthvað sem ég hafði ekki vanist niðri á fyrstu hæðinni.

Á miðvikudeginum var ég aðeins að hressast og þá voru lækkuð við mig blóðþrýstingslyfin en því miður hafði það þau á áhrif að ég rauk upp í himinháan blóðþrýsting um kvöldið og kvöldið eftir og fékk þá bara blóðþrýstingslyf beint í æð til að reyna að lækka þrýstinginn og endaði á því að það steinleið yfir mig við það að fara á klósettið. Níu dögum eftir keisarann var ég loksins útskrifuð. Hilmir þurfti að vera í öndunarvél í 6 daga og ég fékk hann fyrst í fangið þá, æðisleg tilfinnning eftir erfiðan tíma. Hilmir þurfti svo að vera á Cpap í 5 vikur í viðbót þar sem illa gekk að hægja á önduninni hjá honum en það hafðist að lokum að venja hann af því. Þetta gekk allt nokkuð vel fyrir utan nokkra hluti. Hilmir þurfti að fá lyf til að loka fósturæðinni og það virkaði guð sé lof svo ekki var þörf á aðgerð. Það kom í ljós að það hafði blætt inn á heilann hjá honum á fyrstu eða annarri viku þegar hann var ómaður á 5 viku og auðvitað varð það rosalegt áfall að heyra það en guð sé lof var þetta bara 1 stigs blæðing og þegar hann var ómaður aftur fyrir heimför var blæðingin gengin til baka og virðist þetta ekki ætla að draga neinn dilk á eftir sér, guð sé lof. Svo þurfti Hilmir að fá blóðgjöf í kringum 6. viku þar sem hann hafði verið blóðlítill í langan tíma en læknarnir reynt að draga það að gefa honum og sjá hvort að hann myndi ekki taka við sér sjálfur en það gerðist því miður ekki og því gripið til þess að gefa honum blóð. Hilmir var svo útskrifaður eftir 8 vikur og 1 dag.

Þessi lífsreynsla hefur kennt manni mikið og þetta er eitthvað sem ég vil aldrei þurfa að ganga í gegnum því þetta er það erfiðasta sem ég hef gert. Þið sem hafið gengið i gegnum þetta vitið hvað ég á við. Ég er ævinlega þakklát starfsfólkinu upp á vöku sem sá um litla strákinn minn og hjálpuðu mér og manninum mínum að komast í gegnum þetta.

Eva María Hallgrímsdóttir