fbpx

Á verkalýðsdeginum þann 1. maí 2010 þegar ég var aðeins gengin 23 vikur og 5 daga með tvíburana mína losnaði slímtappinn hjá mér. Ég sem ekki átti nein börn fyrir var ekki alveg viss hvað væri að gerast og fékk að koma ásamt manninum mínum í smá paranoju tékk á meðgöngudeildina. Ég var búin að vera með reglubundna verkjalausa samdrætti í langan tíma og hafði verið sagt að ég þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því þar sem það væri eðlilegt. Þegar komið var á meðgöngudeildina var ég skoðuð af deildarlækni sem brá greinilega þegar hann skoðaði mig. Hann sagði við mig að ég væri komin með útvíkkun og að líknarbelgurinn á öðrum tvíburanum væri byrjaður að bunga út og ég mætti alls ekki standa upp og væri hér með rúmliggjandi. Það greip um okkur mikil hræðsla þar sem okkur var tjáð að nú gætu tvíburarnir komið hvað á hverju, þetta væri einungis spursmál um nokkra klukkutíma. Þar sem ég var komin svona stutt gerðum við okkur grein fyrir því að líkurnar á því að þeir myndu lifa væru afar litlar ef þeir kæmu strax. Ég fékk hríðarslakandi lyf  til þess að stöðva hríðarnar og stera til þess að styrkja lungun á tvíburunum. Ég var flutt á fæðingardeildina þar sem ég dvaldi með manninum mínum í tvo sólarhringa. Sem betur fer bólaði ekkert á tvíburunum eftir þessa tvo daga og vorum við þá send á meðgöngudeildina.

Sjá meira á Facebooksíðu Lífs.