fbpx
Snæbjörn Ragnarsson
11717439_10153156731966725_117459155309570593_o

Þetta er dóttir mín, Anna Snæbjörnsdóttir. Hún er þriggja mánaða gömul í dag og vitanlega fallegasta barn í heimi.

Anna fæddist á Landsspítalanum þann 17. apríl sem gekk allt annað en þrautalaust fyrir sig. Eftir nokkuð eðlilegan aðdraganda kom í ljós að sýking hafði grafið um sig innanlegs og þrátt fyrir að ekki væri útlit fyrir stórvægilega hættu var brugðið á það ráð að setja helstu pósta í viðbragðsstöðu. Þannig voru einhverjir kallaðir inn af bakvakt og þar fram eftir götum en stressið var svo sem ekki mikið. Svo var allt drifið í gang, stelpunni kippt út með sogklukku, höfuðið poppaði í heiminn og allt virtist á besta veg. En þá snerist taflið. Stelpan (við vissum reyndar ekki kynið þá) hafði lent í hinni alræmdu axlarklemmu þar sem önnur öxl barnsins lendir undir lífbeini móðurinnar og allt skorðast og situr fast. Á þessum tímapunkti er of seint að grípa til keisaraskurðar því þegar höfuðið er komið út sleppir móðurlíkaminn fóstrinu ekki til baka. Ég fékk seinna útlistun á því hvað gerist þegar svona tilfelli fara á versta veg. Ég ætla ekki að tíunda þær grafísku lýsingar hér en staðreyndin er sú að ég hefði víst klárlega getað misst þær báðar. Þarna horfði ég framan í dóttur mína í fyrsta skipti, pikkfasta milli heima, andlitið lífvana og ekki eins á litinn og ég hefði viljað. Og þá fór af stað það ótrúlegasta sem ég hef orðið vitni að á lífsleiðinni. Ég ætla að taka hetjudáð Agnesar út fyrir sviga, það sem hún gerði er efni í annan pistil því á endanum var það auðvitað hún sem sigraði þessa óvinnandi orrustu og kom stelpunni í heiminn, en hér og nú ætla ég að tala um alla hina sem að þessu komu.

Í kringum okkur voru örugglega hátt í tíu manneskjur af öllum stærðum og gerðum, meirihlutinn konur. Þetta ljómandi fólk hafði fram að þessu brosað og létt lundina, hjálpað í hvívetna og hagað sér eins og við hin vonandi gerum dags daglega. Þegar þarna kom sögu og í harðbakkann sló breyttust hlutirnir hinsvegar algerlega. Þarna átti hver einasta manneskja hlutverk og sinnti því upp á líf og dauða. Án alls fums eða óðagots var gengið í verk sem virtist óleysanlegt. Kunnáttan, sannfæringin og samheldnin var slík að mér leið eins og ég væri staddur mitt í pittstoppi í Formúlu 1, nema hvað hér var líf í húfi, ekki peningar. Án þess að ég vilji dramatísera aðstæður of mikið var það svo að þarna skipti hver einasta sekúnda máli, sviti rann af hverri manneskju og eftir á var herbergið útlítandi eins og sláturhús. En enginn efaðist eitt augnablik.

Eftir 6 mínútur náðist hún í heiminn, skyrhvít og lífvana. Hún andaði ekki og hjartað sló varla. Þarna var ég viss um að við værum búin að missa hana og korteri seinna, þar sem hún lá ennþá líf- og litlaus á borðinu við hliðina á okkur vorum við bæði handviss. Ég veit ekki hvað þessi tæki öll heita, eða hvað fór í raun fram, en ég veit fyrir víst að hún var bæði hnoðuð og blásin og allt hékk á bláþræði. Ég heyrði þetta ótrúlega fólk tala saman á blöndu af tungumáli sem ég kann mjög vel sem og öðru sem ég hef aldrei heyrt. Eftir þessar fimmtán mínútur greindist loks alvöru lífsmark og þá var hún ferjuð eitthvert annað. Og svo biðum við í félagsskap fagfólks sem talaði við okkur á mannamáli og við vissum að allt gat farið á alla vegu. Til að gera langa sögu stutta fengum við hana örstutt í hendurnar sirka klukkustund síðar, í framhaldinu var hún sett í líkamskælingu í þrjá sólarhringa á vökudeild og eftir það í eftirlit í nokkra daga á sömu deild. Á þessum tíma þjónustaði okkur fjöldi fólks sem var nákvæmlega jafn vel starfi sínu vaxið og hópurinn á Formúlu-vaktinni. Jafnt og þétt færðumst við úr óvissunni og góðar fréttir komu á færibandi. Tilfinningin var eins og að þurfa sífellt að draga spil úr spilastokki og draga alltaf ás, svo óskaplega heppin vorum við. Manni leið þó eins og einhver hefði fjarlægt alla hundana úr stokknum og sennilega gosana líka. Sex dögum eftir fæðinguna gengum við svo út af Landsspítalanum með alheilbrigt barn sem núna heitir Anna. Það er ótrúlegt.

Ég er búinn að melta þennan pistil í þrjá mánuði og velta ýmsu fyrir mér. Ég er hef skoðun á mörgu í samfélaginu okkar og ég læt stundum í mér heyra. Þó er það svo að ég get yfirleitt alltaf séð hina hliðina þegar mér finnst fólk hugsa undarlega. Ég er í prinsippinu ekki fylgjandi stóriðju en auðvitað get ég skilið raddirnar sem tala í hina áttina, í það minnsta upp að ákveðnu marki. Sama er að segja um allskonar önnur mál, stór og smá, hótel eða tónleikastaðir, flugvöllur eða ekki, yfirleitt hafa báðir aðilar að einhverju leyti rétt fyrir sér. En þetta er eitthvað annað. Það sem skilaði dóttur minni heilli heim var batterý sem er óskiljanlega gott. Þarna fer saman kunnátta, færni, mannauður, tækjakostur, manngæska og óteljandi margt fleira sem sennilega er hægt að meta að einhverju marki til fjár en umfram það eru auðlindir sem enga krónutölu er á festandi. Ég gef mig ekki út fyrir að vilja stjórna landinu og hef alls engan áhuga því, enda er kerfi eins og okkar byggt kringum það að fáir hafi völdin til að taka ákvarðanir fyrir okkur hin. Þá get ég ekki verið reiður þegar hlutirnir eru ekki allir eins og ég vil hafa þá. Nema núna.

Það er skrýtin tilfinning að vera feginn því að hafa lent í okkar lífsreynslu þó ekki seinna en 2015. Hvernig eiga svona tilfelli eftir að enda eftir tvö ár, fimm eða tíu? Þið sem eruð á vaktinni, og allir sem hafa eitthvað með þessi mál að gera, vilijð þig gera svo vel að taka þetta til ykkar: Meðferð ykkar á heilbrigðiskerfinu er ekki spurning um pólitík. Þetta er spurning um almenna skynsemi, mannréttindi og rökhugsun. Að höggva svona úr meginstoð samfélags er foráttuheimska og sú heimska skrifast á ykkur sem ráðið. Endilega rífist eins og frekir smákrakkar um samfélagsmál, alþjóðamál og stjórnunarhætti af öllu tagi, það er sennilega öllum hollt þegar upp er staðið. En þetta lýtur öðrum lögmálum. Ef við setjum allt skrum og allar flækjur á ís og horfum á ískaldan kjarna málsins þá eruð þið að stuðla að því að hvert og eitt okkar eigi minni möguleika á heilbrigðu lífi. Þið plokkið mannspil og ása kerfisbundið úr stokknum, skilið inn tvistum og þristum til baka og áhrifin af því eru nú þegar orðin skelfileg. Þetta er svo ótrúlega vitlaust að ég er farinn að hamra fastar á lyklaborðið en góðu hófi gegnir. Er þetta ennþá óskiljanlegt? Einföldum þetta þá enn frekar:

Þið eruð að djöggla með líf barnanna okkar, helvítis fólkið ykkar! Annað hvort hættið þið því og kippið málum í liðinn, þó svo að þið þurfið að leggja allt annað til hliðar á meðan, eða þá að þið víkið fyrir fólki sem er ekki svona ótrúlega tregþenkjandi eins og þið virðist vera. Ég sætti mig aldrei við minna!

SR

Birt með leyfi