fbpx

Langþráðar endurbætur á húsakynnum Kvennadeildar Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) eru að hefjast í krafti þess fjár sem safnaðist í velheppnaðri landssöfnun í byrjun mars sl. Það var Líf styrktarfélag kvennadeildarinnar sem stóð fyrir landssöfnuninni en félagið hefur allt frá stofnun haft það að meginmarkmiði sínu að bæta aðbúnað þeirra kvenna sem nota þjónustu deildarinnar.

Alls söfnuðust rösklega 62 milljónir í landssöfnuninni og nú þegar hefur verið afráðið að verja 40 milljónum í gagngerar endurbætur á meðgöngu-og sængurkvennadeild.  Framkvæmdir hefjast á næstu vikum og er ráðgert að þeim ljúki í október á þessu ári.  Ákvörðun um enn frekari framkvæmdir fyrir andvirði söfnunarinnar verður tekin innan tíðar en þar eð framlög eru enn að berast í söfnunina liggur ekki ljóst fyrir hver heildarupphæð hennar verður.

Einstök ánægja ríkir meðal stjórnar Lífs og framkvæmdastjórnar Landspítalans um hversu fljótt hægt er að hefja og klára framkvæmdir og vill Líf styrktarfélag koma sérstökum þökkum til allra þeirra sem gáfu í landssöfnunina.

Rannveig  Rúnarsdóttir, yfirljósmóðir á meðgöngu- og sængurkvennadeild,  segir að þetta sé mjög mikilvægt skref til að bæta þjónustu og aðbúnað fyrir konur og aðstandendur þeirra. “Að bæta aðstöðuna með því að fjölga einbýlum með snyrtingu er mikilvægt fyrir veikustu konurnar og það er framar björtustu vonum að þetta verði að veruleika í haust”.

Fjallað er um úthlutunina á visir.is