fbpx
Á liðnu ári hlaut Líf veglegan styrk frá Vís að upphæð tæplega 740.000 kr. Styrkurinn var fyrir kaupum á tveimur MamaBirthie æfingardúkkum fyrir kvennadeild Landspítala.
Ár hvert eru haldnar bráðaæfingar (PROMPT) þar sem allir starfsmenn barneignarþjónustunnar, ljósmæður, læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, taka þátt. Þar er æfð teymisvinna í bráðatilfellum s.s. endurlífgun nýbura, blæðing eftir fæðingu, axlarklemma o.fl. Æfingardúkkurnar eru nýttar á þessum æfingum og eru því mjög mikilvægt öruggistæki.
Nýju dúkkurnar sem Vís gaf kvennadeildinni hafa slegið í gegn og nýtast mjög vel í kennslu við réttu handtökin ef upp koma erfiðar aðstæður í fæðingu. Dúkkurnar hafa reynst sérstaklega vel við kennslu í axlarklemmu fæðingu. Axlarklemma er alvarlegt bráðatilvik í fæðingu þar sem öxl barnsins klemmist upp að lífbeini móðurinnar þegar höfuðið er fætt, barnið situr fast og kemst ekki í heiminn án aðstoðar. Þá er mikilvægt að hafa hraðar hendur til að koma í veg fyrir súrefnisskort hjá barninu.
Hjartansþakkir Vís fyrir veittan styrk og ykkar þátt í að gera kvennadeild okkar allra að enn öruggari og betri stað ❤️