fbpx

Líf hefur hafið sölu á minningarkortum.

Myndin á kortinu er máluð af Hönnu Lilju Valsdóttur en hún var ein af stofnfélögum Lífs. Hanna Lilja lést í ágúst 2011 og er kortið gefið út í minningu hennar og dóttur hennar Valgerðar Lilju Gísladóttur. Gísli eftirlifandi eiginmaður Hönnu Lilju og faðir Valgerðar Lilju gaf Líf þessa fallegu mynd til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu kvennadeildarinnar.

Líf þakkar Gísla og fjölskyldu hans innilega stuðninginn.

Eftirfarandi er bréf frá Gísla og fjölskyldu hans:

Hanna Lilja var mikil listakona. Í henni bjó sköpunargleði sem var henni mikill drifkraftur. Framtíðar draumar Hönnu stóðu meðal annars til þess að læra list, bæði málaralist og ljósmyndun. Lífsviðhorf hennar voru breið og hæfileikarnir óendanlegir. Sköpunargleði hennar fékk sín einnig notið í störfum hennar sem ferðamálafræðingur og kennari, en hún kenndi ungum skólabörnum og notaði þá gjarnan leiki og listtengd viðhorf eins og að „horfa út fyrir rammann“ í viðfangsefnum. Jákvæðni Hönnu var ólýsanleg og hennar breiða bros fyllti hvert hjartarými sem mætti henni. Hanna Lilja var þó fyrst og fremst móðir og eiginkona þar sem allt ofangreint komst að. Ekkert var henni ofviða í þeim efnum. Þegar Hanna Lilja gekk með frumburð okkar veiktist hún skyndilega af meðgöngueitrun. Hún var lögð inn á meðgöngudeild LSH um það bil mánuði áður en barnið fæddist. Sú vegferð var henni mikil þolraun sem varð hvatinn að því að hún tók ákvörðun um að gerast stofnfélagi í Styrktarfélaginu Líf og fór hún á stofnfund þess í Háteigskirkju. Þegar hún lést hafði hún alls kyns hugmyndir um hvernig hún gæti lagt félaginu lið og áætlaði að hrinda þeim í framkvæmd eftir að tvíburadætur okkar væru fæddar. Það var einn hennar drauma. Það er því mér, börnunum okkar Hönnu Lilju og fjölskyldum sannur heiður að leggja Styrktarfélaginu Líf lið fyrir hennar hönd með því að afhenda félaginu að afnotarétt af einni mynda hennar til styrktar félaginu. Hanna Lilja málaði nær eingöngu myndir í þessum stíl en þær minna á einhvers konar hulduverur, sem ég kýs að kalla verndara. Ég trúi því að hún og Valgerður Lilja, Liljurnar okkar tvær, verndi okkur öll.

Með hjartans kveðju og von um huggunarríka framtíð,

Gísli Kr. Björnsson.