fbpx

Sunnudaginn 27. mars sl. blésu Harðarkonur í Mosfellsbæ til kvennatöltsmóts. Í ár var mótið haldið til styrktar LÍF styrktarfélagi og rann öll innkoma beint til þessa góða og þarfa verkefnis. Allir sem að mótinu komu gáfu vinnu sína. Hátt í milljón safnaðist og færum við Harðarkonum hugheilar þakkir fyrir frábært mót og mikinn velvilja í garð Lífs.

Mótið fór fram innandyra í reiðhöll Harðarmanna og keppt var í fjórum flokkum, byrjendaflokki, flokki minna vana, meira vana og í opnum flokki. Úrslitin er hægt að sjá á vefsíðu Harðar.

Mótið var allt hið glæsilegasta en auk fallegra hesta og kvenna voru fjörug skemmtiatriði þar sem vinsælustu sjónvarpspiltar landsins, Sveppi, Steindi jr., Egill „Gillz“ og Naglbíturinn Villi, létu til sín taka í brjóstamjólkurreið. Einnig var haldið glæsilegt happdrætti og spennandi uppboð á íslenskri hönnun. Ljúffengar veitingar voru á boðstólum allan daginn.

Rætt var við Siggu Klingenberg, sem fór fyrir skrautreið á sinn einstaka máta, í fréttum Stöðvar 2. Hægt er að horfa á viðtalið hér. Sigga samdi einnig vísu af tilefninu:

MEÐ STÓRA GRETTI ÉG STEFNI Í REIÐ
Á HONUM VIRÐIST GATAN GREIÐ
VIÐ KONUR SAMAN Í TÖLTIÐ SVÍFUM
TIL AÐ HJÁLPA NÝJUM LÍFUM…………………?

Myndir af mótinu er að finna á Facebooksíðu Lífs.