fbpx

Hönnun sem stuðlar að vellíðan og heilbrigði á kvennadeildinni

Minni streita og betri líðan í endurbættu umhverfi
Nýir litir og smekkleg húsgögn.
Biðstofa á móttökusvæði Nýir litir og smekkleg húsgögn.

Sú grundvallarhugsun var höfð að leiðarljósi að fólk eigi að vera í öndvegi og tilgangur hönnunarinnar er bætt upplifun þeirra sem í hlut eiga, enda sýna rannsóknir fram á að manngert umhverfi hefur áhrif á líðan fólks og því mikilvægt að stuðla að því að rýmið og viðmótið styðji við vellíðan og heilbrigði.

Merkingar sem minnka streitu

Í hönnuninni er sérstakri athygli beint að merkingarkerfi, viðmóti og upplýsingagjöf, enda ljóst að stór hluti skjólstæðinga fyllist óöryggi og streitu við það að leita uppi þá þjónustu sem þeir þurfa.

Allar merkingar hafa verið teknar í gegn.
Skýrar merkingar Allar merkingar hafa verið teknar í gegn.

Samstarfið hófst vorið 2012 með námskeiði í upplifunarhönnun við Listaháskóla Íslands, en frá þessum tíma þar til nú, hafa auk móttökusvæðisins nokkur minni rými kvennadeildar einnig verið endurhönnuð út frá sömu grunngildum.

„Í mínum huga er verkefnið mikilvæg viðurkenning á vægi hins mannlega þáttar, mikilvægi upplifunar fólks af sjúkrahúsum og mætti hönnunar til úrbóta í því sambandi. Hönnunin nær til fleira en þess sem sýnilegt er og það þykir mér kannski einna mikilvægast; að endurhugsa þjónustuferla, miðlun upplýsinga og að vanda útlit, tón og anda, þetta skiptir allt máli. Hús sem sinnir starfsemi líkt og kvennadeildin þarf að stuðla að vellíðan og heilbrigði, og rými sem er snyrtilegt og fallegt talar af virðingu til fólks,” segir Hlín Helga Guðlaugsdóttir, upplifunarhönnuður og aðjunkt við Listaháskóla Íslands sem kom að verkefninu.

„Merkingar sem fólk skilur hratt og vel koma í veg fyrir óþarfa streitu, opin móttaka býður þig frekar velkominn en lokuð, mild lýsing skapar notalegheit o.s.frv. Það má alltaf gera betur og gera meira, en þetta er fínn áfangi og hugarfarsbreytingin ekki síður mikilvæg en hið áþreifanlega,“ bætir hún við.

Breytingarnar hafa nú orðið að veruleika m.a. fyrir tilstuðlan Líf styrktarfélags kvennadeildar og ötuls hugsjónastarfs samstarfsaðilanna. Verkefnið er gott fordæmi um tækifæri til nýsköpunar innan rótgróinna og mikilvægra stofnana íslensks samfélags og óskar Hönnunarhornið Landspítalanum til hamingju með þessar jákvæðu framfarir í hönnunarmálum.

Hönnuðir verkefnisins ásamt Hlín eru Hafsteinn Júlíusson og Karítas Sveinsdóttir frá HAF Studio og Lóa Auðunsdóttir grafískur hönnuður og aðjunkt við Listaháskóla Íslands.

Endurbæturnar á kvennadeildinni voru löngu tímabærar.
Fyrir breytingar Endurbæturnar á kvennadeildinni voru löngu tímabærar.
Grein skrifuð af
Kolfinna Von Arnardóttir
kolfinna@artikolo.is