fbpx

Í tilefni af landssöfnun Lífs styrktarfélagsins, til stuðnings kvennadeildar Landspítalans, ætla CrossFit Sportarar að blása til mikillar fjáröflunar miðvikudaginn 23. febrúar, kl. 19:00. Uppákoman verður á formi eins konar líkamsræktargjörnings, þar sem hlutverkaskipan fæðingardeildarinnar verður varpað yfir í líkamsræktina.

Uppákoman fer þannig fram að 50 konur frá CrossFit Sport ætla að freista þess að gera 5.000 upphífur á einni klukkustund. Við hlið hverrar konu verður karl, sem mun telja, hvetja, nudda og dekra við konuna á meðan hún gengur í gegnum þrekraunina (líkt og á fæðingardeildinni).

Allir sem taka þátt í uppákomunni (bæði konur og karlar), auk annarra viljugra sjálfboðaliða, munu safna áheitum. Markmiðið er að hver og einn safni áheitum fyrir að minnsta kosti 10.000 kr, þannig að upphæðin sem safnist verði ekki lægri en 1.000.000 kr.

Þetta er vitanlega metnaðarfullt markmið hjá ekki stærri hópi og þess vegna er mikilvægt að allir sem vettlingi geta valdið taki þátt. Viðtökur hingað til hafa verið frábærar. Nú þegar hafa vel yfir 50 konur boðist til að gera upphífur, og yfir 60 aðrir boðist til að styðja þær og safna áheitum. Ef þú ert ekki kominn á einn af listunum þremur sem hanga uppi í CrossFit Sport skaltu skrá þig við fyrsta tækifæri og taka þátt í þessu frábæra verkefni.

Nánari upplýsingar á www.crossfitsport.is