fbpx
fr_20151025_025234
Betri upplifun var útgangspunkturinn í endurhönnun á umhverfi kvennadeildar Landspítalans. Einn af hönnuðum þess segir að það sé mikilvægt að skapa róandi andrúmsloft á kvennadeildinni og minnka streituvaldandi þætti í umhverfinu.

„Allir góðir hönnuðir hafa notendur í huga við sína hönnun. En það sem er sérstakt við þetta verkefni er að útgangspunktur þess er að bæta upplifun skjólstæðinga kvennadeildarinnar, fyrst og fremst,“ segir Hlín Helga Guðlaugsdóttir, aðjúnkt við Listaháskóla Íslands. Hún er ein þeirra hönnuða sem koma að því verkefni að endurhanna umhverfi deildarinnar. Grundvallarhugsunin er að skjólstæðingar deildarinnar, þeirra upplifun og líðan, sé í öndvegi á kvennadeildinni. Hlín segir að verkefnið hafi verið löngu tímabært. „Kvennadeildin er í ævafornu húsnæði og hún hefur setið á hakanum í endurbótum á spítalanum.“

Verkefnið var unnið í samvinnu Lífs styrktarfélags, hönnuða og sérfræðinga kvennadeildar og Landspítalans. Það hófst vorið 2012 og síðan þá hafa nokkur rými kvennadeildarinnar verið endurhönnuð út frá þessum sömu grunngildum. Áfanginn sem nú er lokið snýr að móttökusvæði kvennadeildarhússins. Sérstök áhersla var lögð á merkingakerfi, viðmót og upplýsingagjöf. „Við byrjuðum á að taka út stöðuna og greina hvar helstu vandamálin liggja. Það komu berlega í ljós ýmsir vankantar. Það þykir til dæmis mjög erfitt að rata um húsið. Fólk getur fyllst óöryggi við það og það eitt og sér er streituvaldur. Það er yfirleitt alveg nóg álag á þá sem nota þjónustu kvennadeildarinnar fyrir.“

Móttökusvæðið verður formlega opnað á miðvikudaginn, 28. október, klukkan 16:30.

fr_20151025_025235

Frétt birtist á ruv.is