Það var einstök stemning í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þann 19. ágúst. Enn og aftur var slegið metið í heildar-áheitasöfnun og gaman að sjá sameiningarkraftinn hjá íslensku þjóðinni, bæði á hlaupabrautinni og í áheitasöfnun. Alls söfnuðust yfir 199,8 milljónum króna sem runnu til 175 ólíkra góðgerðarfélaga.
Við viljum sérstaklega þakka öllum okkar dásamlegu hlaupurum sem tóku þátt í hlaupinu og söfnuðu áheitum fyrir félagið. 11 glæsilegir Lífshlauparar söfnuðu samtals um 860.000 kr. 🩷
Starf Lífs styrktarfélags byggist alfarið á stuðningi einstaklinga og fyrirtækja og því kemur upphæð sem þessi félaginu að virkilega góðum notum. Í ár mun fjárhæðin renna upp í kostnað af nýju sónartæki fyrir kvennadeild 21A, en tækið gagnast afar vel við skoðanir, greiningar og meðferðir fjölmargra sjúkdóma í kvenlíffærum, t.d. krabbameina, endómetríósu, vöðvahnúta í legi o.fl.
Takk fyrir stuðninginn, bæði hlauparar og allir þeir sem sáu sér fært að leggja söfnun þeirra lið. Við erum þakklát fyrir ykkar framlag!
Við hjá Líf hlökkum til að sjá ykkur að ári í þessari gleðiveislu 🩷