fbpx

Þetta reddast

Síðastliðið föstudagskvöld var á Stöð 2 lagt undir þáttinn Gefðu líf, söfnunarþátt til styrktar kvennadeild Landspítalans. Málefnið er gott og þessi þáttur var með bestu söfnunarþáttum sem ég hef séð, ef ekki sá besti, allir svo glaðir og jákvæðir og reynslusögurnar svo fallegar. Hvað er jú fallegra og hjartnæmara en koma nýs einstaklings í heiminn? Ég er frekar grátgjörn þegar ég sit í sófanum og horfi á hugljúft sjónvarpsefni og játa fúslega að mér vöknaði oft um augun þegar fólk sagði frá þeim sælustundum þegar það fékk barn í fangið. Sumir viðmælenda höfðu gengið í gegnum erfiðar meðgöngur og voru eðlilega afar þakklátir góðu starfsfólki kvennadeildarinnar.

Þegar leið á þáttinn tóku samt að sækja á mig þær hugsanir að það væri eitthvað einkennilegt við það að safna þyrfti í akkorði og spreng fyrir Landspítalann; ættum við ekki að geta haldið uppi sómasamlegum spítala með sköttunum okkar? Þessi aðferð að redda málum með einu átaki er líka eitthvað svo íslensk. Vissulega er gaman hve margir eru tilbúnir að opna pyngjuna og reiða fram fé til tækjakaupa, en betra væri ef við gætum skipulagt hlutina með þeim hætti að ekki þyrfti að grípa til þessara ráða.

Ýmsar deildir á spítalanum eru nefnilega þannig að starfsemin sem þar fer fram er lítið heillandi til þjóðarátaks. Þær eru jafn illa búnar en hvað skal gert þegar sjúklingarnir eru haldnir einhverjum leiðinda sjúkdómum sem fara illa í sjónvarpssal?

Ég vona að minnsta kosti að við berum gæfu til þess að forgangsraða betur í fjármálum ríkis og sveitarfélaga og þurfum ekki að leiðast út á þá braut að hefja þjóðarsöfnun með tilheyrandi sjónarpsþætti til styrktar málaflokkum sem ættu að vera í fullkomnu lagi; heilbrigðiskerfi og menntamálum.