fbpx

Þriðjudagskvöld 19. október sl. var haldið bráðskemmtilegt kynningarkvöld í safnaðarheimili Háteigskirkju í tilefni af úrkomu matreiðslubókarinnar LÍFSFYLLING.

Bjarney Harðardóttir formaður félagsins kynnti starfsemina og sagði frá því sem er  framundan.

Síðan tók Kristján Skúli Ásgeirsson skurðlæknir á LSH við og fjallaði um nýjar áherslur í skurðmeðferð brjóstakrabbameina. Í erindinu koma m.a. fram að langflestar konur sem greinast með brjóstakrabbamein í dag deyja ekki úr sjúkdómnum. Hann talaði ítarlega um lífsgæði, brjóstauppbyggingar og brjóstskurðlækningar og mikilvægi þess að konur hafi val.

Síðan tók Edda Björgvinsdóttir leikkona með meiru við og talaði um nauðsyn húmors og jákvæðs viðhorfs. Hún hvatti alla til að syngja og dansa, rifja upp augnablik sem fengu okkur til að veltast um af hlátri ásamt pínlegum augnablikum og setja þau í gleðibankann. Síðan er hægt að ná í þessa reynslu þegar við þurfum á henni að halda. Húmor er að mati Eddu dauðans alvara þar sem adrenalínið sem losnar við t.d. hláturskast sé gott mótvægi við streituhormónum.

Fundarstjóri var varaformaður félagsins Guðrún Högnadóttir.

Bókin LÍFSFYLLING var til sölu ásamt handverkum og í kaffipásunni var boðið upp á ljúffengar vöfflur með sultu og rjóma.