fbpx

Við stöndum á tímamótum með félagið okkar, Líf. Við lögðum upp með tvö markmið í byrjun árs 2010, annarsvegar að auka vitund á félaginu og hinsvegar að byggja fjárhagslegan grunn fyrir félagið svo hægt yrði að úthluta til verkefna á kvennadeildinni.  Við höfum náð báðum þessum markmiðum.

Yfir 65 milljónir söfnuðust í söfnunarþættinum GEFÐU LÍF sem fram fór í beinni útsendingu á Stöð 2 föstudagskvöld 4. mars sl. Margir komu að gerð þátttarins og lögðu sitt af mörkum í aðdraganda landssöfnunnarinnar sem hófst þann 16. febrúar með blaðamannafundi.

Í aðdraganda söfnunarþáttarins héldum við 4 fræðslufundi sem vörðuðu heilsufar kvenna og náðum að virkja fólk til þátttöku. Við seldum boli í Kringlunni og Smáralind og fengum stærstu smásala landsins til að selja fyrir okkur. Þar að auki náðum við að halda úti öflugri vefsíðu www.gefdulif.is, söfnuðum 5000 Facebookvinum og vorum mjög sýnileg í fjölmiðlum.  Það kynningarstarf sem átt hefur sér stað á félaginu er ómetanlegt. Það hefur gert félagið áhugavert, sýnt fram á mikilvægi þess og myndað öflugan hóp sem vill starfa í þágu þess.

Við höfum byrjað árið af miklum krafti og lagt mikilvægan grunn undir félagið sem það mun búa að um ókomna tíð.

Við færum öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag, sýndan samhug og velvilja. Hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Stjórn Lífs