1.gr.

Félagið heitir Líf styrktarfélag.

2.gr.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

3.gr.

Tilgangur félagsins er að styrkja kvennadeild Landspítalans, bæta aðbúnað og þjónustu við  konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma.

4.gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með regulegum framlögum Lífsfélaga, fjáröflun og frjálsum framlögum.

5.gr.

Nöfn stofnfélaga eru rituð í meðfylgjandi fylgiskjali. Auk þeirra teljast allir sem skrá sig í félagið fyrir 31.desember 2009 stofnfélagar.

6.gr.

Félagsaðild er öllum heimil sem vilja vinna að markmiðum félagsins. Til að teljast fullgildur meðlimur skal viðkomandi greiða reglulega til félagsins sem Lífsfélagi. Úrsögn úr félaginu þarf að vera skrifleg.

7.gr.

Stjórn félagsins er skipuð 9 félagsmönnum kosnum á aðalfundi skv. 8. gr. Á hverjum tíma skal a.m.k. einn stjórnarmaður vera starfsmaður kvennadeildar til að tryggja sem best upplýsingaflæði við stjórnina. Formaður er kosinn til eins árs í senn en aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir með sér störfum varaformanns, gjaldkera og ritara.

Stjórnin ber ábyrgð á starfsemi félagsins og markar stefnu þess. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra til að framfylgja stefnunni og annast daglega umsjón. Framkvæmdastjóri boðar stjórnarfundi þegar þurfa þykir, þó aldrei sjaldnar en þrisvar sinnum á ári. Firmaritun félagsins er í höndum meirihluta stjórnar.

8.gr.

Aðalfundur skal að jafnaði haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert og skal hann boðaður skriflega eða á annan sannanlega hátt með viku fyrirvara. Uppgjör og ársreikningar félagsins og sjóða á vegum þess, sem endurskoðaðir hafa verið af löggiltum endurskoðanda, skulu liggja frammi a.m.k. viku fyrir aðalfund.

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar um starfsemi liðins starfsárs.
  3. Endurskoðaðir reikningar félagsins
  4. Lagabreytingar.
  5. Kjör formanns til eins árs.
  6. Kjör þriggja manna í stjórn til tveggja ára.

Aðeins Lífsfélagar mega vera þátttakendur á aðalfundi.

9.gr.

Stjórnin afgreiðir umsóknir sem berast um styrki í samræmi við tilgang félagsins. Umsóknir skulu vera vel rökstuddar og greinilegar. Áður en stjórn samþykkir umsókn er hún yfirfarin og metin í samráði við fagaðila eftir því sem stjórn telur þörf á. Úthlutanir eiga sér stað yfir allt árið eftir fjárhagsstöðu félagsins. Stjórn félagsins er í reglulegum samskiptum við deildarstjóra kvennadeildar varðandi umsóknir og úthlutun styrkja.

10.gr.

Rekstrarkostnaði skal ávallt haldið í lágmarki. Fjármunir félagsins skulu ávaxtaðir með sem tryggustum hætti.

11.gr.

Ákvörðun um slit á félaginu má aðeins taka á aðalfundi með einföldum meirihluta og renna eignir þess til kvennadeildar Landspítalans.

12.gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Uppgjör og ársreikningar félagsins og sjóða á vegum þess, sem endurskoðaðir hafa verið af löggiltum endurskoðanda, skulu liggja frammi a.m.k. viku fyrir aðalfund.

13.gr

Lögum þessum er aðeins breytt á aðalfundi með einföldum meirihluta. Tillögur að lagabreytingu skulu sendar út með fundarboði.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins og öðlast gildi 7. desember 2009, breytingar samþykktar í mars 2013, 20. mars 2018 og 11. apríl 2019.

Reykjavík 11. apríl 2019