LÍF á marga velunnara sem standa við bakið á félaginu og gera okkur þannig kleift að vera sá bakhjarl kvennadeildar sem við viljum vera.
Hér fyrir neðan er sagt frá nokkrum þeirra sem hafa látið gott af sér leiða með afrekum sínum til styrktar LÍF.

John Snorri Sigurjónsson á K2

John Snorri Sigurjónsson var ofurhugi og einn mesti fjallagöngumaður okkar Íslendinga. Þegar hann ákvað að láta gamlan draum rætast og klífa K2, sem er næsthæsta fjall veraldar og eitt það hættulegasta, langaði hann að láta gott af sér leiða í leiðinni. Þar sem hann var sex barna faðir og naut þjónustu Kvennadeildar Landspítalans oftar en margir aðrir, ákvað hann að styrkja Líf með því að safna áheitum. Honum tókst ætlunarverk sitt 28. júlí 2017 og varð þar með fyrstur Íslendinga til að klífa K2.

John Snorri lést árið 2021 þegar hann gerði tilraun til að vera meðal þeirra fyrstu til að klífa K2 að vetrarlagi ásamt tveimur félögum, sem einnig létu lífið. Talið er líklegt að þeir hafi náð á top fjallsins.

„Til að takast hið ómögulega verður maður að reyna hið fáránlega“. Þessi speki spænsks rithöfundar voru einkunnarorð John Snorra. Orð sem áttu vel við hjá manni sem vann endurtekið afrek sem okkur hinum fannst ótrúleg.

Blessuð sé minning Johns Snorra.

Sólarhrings afrekssund Guðmundar Hafþórssonar

Guðmundur Hafþórsson sundkappi og einkaþjálfari þreytti sleitulaust sólarhrings áheitasund sumarið 2014 til styrktar Líf styrktarfélagi.

Guðmundur, eða Gummi Haff eins og hann er jafnan kallaður, ákvað að allur ágóði af sundinu í Ásgarðslaug myndi renna til endurbóta á aðstöðu fyrir foreldra sem þurfa að dvelja langdvölum á spítalanum vegna veikinda barna sinna. Guðmundur og kona hans höfðu sjálf fengið að kynnast aðstöðunni á vökudeild af eigin reynslu eftir að dóttir þeirra fæddist með aukarás í hjarta. Þau kynntumst því af eigin raun hvað það er mikilvægt að fjölskyldunni líði vel.

Guðmundur synti 61,1 kílómetra á sólarhring sem gerir um 2446 ferðir fram og til baka. Með þessu afreki náði hann að safna 1.7 milljón. Þessum fjármunum hefur verið varið í að innrétta þrjú herbergi fyrir konur og aðstandendur þeirra sem þurfa að dvelja lengur á spítala og eru með börn á vökudeild.

Styrktarhandboltaleikur Valskvenna að frumkvæði Kristínar Guðmundsdóttir

Úrslitakeppnin í meistaraflokki kvenna í handknattleik vorið 2013 hófst á styrktarleik fyrir Líf styrktarfélag en Kristín Guðmundsdóttir leikmaður Vals átti frumkvæði að leiknum. Markmið Kristínar með söfnuninni var að bæta aðbúnað kvenna sem missa börn sín á meðgöngu eða í fæðingu. Kristín varð sjálf fyrir þeirri erfiðu lífsreynslu árið 2011 að tvíburadrengir sem hún gekk með komu í heiminn alltof snemma eða eftir aðeins 19 vikna meðgöngu. Drengirnir áttu sér aldrei lífsvon. Í gegnum þessar raunir sínar áttaði hún sig á því hversu mikilvægu hlutverki Líf sinnir og hversu erfitt er fyrir konur sem missa börn að vera innan um fæðandi konur og börn þeirra á meðan þær eru að jafna sig eftir missinn.

Árið 2014 innréttaði Líf sérherbergi vegna andvana fæðinga fyrir fjármuni sem söfnuðust í leiknum eftir ábendingar Kristínar um það sem betur mætti fara í þjónustu við konur í þessum viðkvæmu aðstæðum. Herbergið hefur hlotið nafnið Kristínarstofa henni til heiðurs.

Vilborg Arna á Suðurpólinn

Vilborg Arna Gissurardóttir fjallagarpur gekk ein síns liðs á Suðurpólinn í desember 2012. Hún var fyrsti Íslendingurinn til að fara þessa leið ein og vann þar með einstakt afrek. Vilborg gekk 1.140 kílómetra á 60 dögum með gildin sín, jákvæðni, áræðni og hugrekki, að leiðarljósi. Þannig tókst henni að sigrast á ótrúlegustu aðstæðum og gera tíu ára draum sinn að veruleika.

Vilborg ætlaði ekki aðeins að verða fyrsti Íslendingurinn í sögunni til að ganga á Suðurpólinn ein síns liðs heldur vildi hún einnig láta gott af sér leiða og leggja sitt af mörkum til að efla hag þeirra kvenna sem þurfa að leita þjónustu Kvennadeildar Landspítalans. Þess vegna ýtti hún úr vör söfnunarátakinu Lífsspor sem stóð yfir á meðan á ferð hennar á Suðurpólinn stóð.

Á leið sinni á Suðurpólinn safnaði Vilborg 35 milljónum fyrir Líf styrktarfélag. Söfnunarféð rann óskipt í endurgerð aðstandendaherbergis og setustofu sjúklinga sem fengið hafa nafnið Vilborgarstofa og Pólstjarnan.

Landssöfnun 2011

Yfir 65 milljónir söfnuðust í landssöfnuninni GEFÐU LÍF til styrktar kvennadeildar Landspítalans sem fram fór í beinni útsendingu á Stöð 2 þann 4. mars 2011.

Markmið landssöfnunarinnar var að ljúka við framkvæmdir til bættrar aðstöðu og aðbúnaðar á meðgöngu- og sængurlegudeild. Söfnunarféð nýttist afar vel til að nútímavæða deildina og tryggja að konum og börnum séu búnar bestu hugsanlegar aðstæður til að fæðast, dafna og þrífast í lífinu.