John Snorri og félagar farnir af stað í grunnbúðir K2

John Snorri Sigurjónsson hefur nú hafið göngu sína upp að K2 sem er annað hæsta fjall í heimi og eitt hið erfiðasta í heimi að klífa. Næstu 40 dagar fara í það að komast á topp fjallsins sem aðeins 240 manns hafa komist á og enginn síðustu tvo ár.

Fyrsti leggur ferðarinnar er 63 km. ganga, á lengsta skriðjökli í heimi, líklegt er að sú ganga taki sjö til níu daga. Eftir þann tíma ætti John Snorri og hópurinn sem hann fylgir að vera kominn í grunnbúðir K2, þar verður hópurinn í vikutíma áður en hafist verður handa við að setja upp línur í fyrstu búðir.

“Eftir að við náum grunnbúðum K2 og höfum hvílst og jafnað okkur á hæðamuninum fara næstu vikur í að koma vistum upp í búðir fjögur, sem eru síðustu búðirnar áður en farið er á toppinn. Áætlað er að við reynum við toppinn seinnipart júlímánaðar, allt er það háð veðri og ástandi fjallsins hvenær það verður. Mikið er um skriður (snjó og grjót) í fjallinu og því mikilvægt að lesa það sem best svo ferðalagið fari vel. Fjallið verður að vera öruggt.” sagði John Snorri áður en hópurinn hélt af stað út á ísinn.

Líf og John Snorri
John Snorri er fimm barna faðir. Hann hefur heimsótt Kvennadeild Landspítalans oftar en margir og notið þeirrar einstöku þjónustu sem þar er veitt. Þegar John Snorri ákvað að láta gamlan draum rætast og ganga upp K2 langaði hann að láta gott af sér leiða í leiðinni. Eitt leiddi af öðru og núna er John Snorri farinn af stað í leiðangurinn mikla merktur Líf Styrktarfélagi í bak og fyrir.

John Snorri mun því næstu vikur safna áheitum fyrir Líf og þar með fara í spor Vilborgar Örnu pólfara sem gerði slíkt hið sama þegar hún gekk ein síns liðs á Suðurpólinn undir lok árs 2012. Þeir sem vilja styðja John Snorra í þessu ferðalagi og um leið Líf – geta farið inn á www.lifsspor.is eða hringt í síma 8051515.

Það munar um hvert áheit því hvert slíkt gerir Líf kleift að styrkja kvennadeild Landspítalans enn betur en áður. Um leið og John Snorri stefnir á að verða fyrsti íslendingurinn að komast á topp K2 ætlar Líf styrktarfélag að fylgja honum eftir með umfjöllun og myndum á www.lifsspor.is og á facebooksíðu verkefnisins. Líf fagnar samvinnunni við John Snorra og vonar að sem flestir fylgi honum eftir í þessu ótrúlega ferðalagi.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Kári Schram hefur fylgt John Snorra eftir í nokkra mánuði við undirbúning ferðarinnar og er þessa dagana með honum á göngu í átt að grunnbúðum K2. Kári er að vinna að alþjóðlegri heimildarmynd um ferðalagið og fylgdi John Snorra einnig í grunnbúðir Everest fyrir nokkrum vikum þegar John Snorri gekk upp á fjórða hæsta fjall heims Lhotse.

__

Líf styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans hefur þann tilgang að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.
www.gefdulif.is

Please follow and like us:

Athugasemdir

Athugasemdir

Er þetta áhugavert? Láttu aðra vita og taktu þátt